FHIF og sjálfbærni

Félag húsgagna- og innréttingaframleiðenda hefur frá árinu 2021 verið í vegferð að aukinni sjálfbærni innan fagsins til að stuðla að auknu félagslegu og umhverfislegu jafnvægi. Í samvinnu með Circular Solutions, og síðar KPMG, var unnin greining á umhverfisáhrifum húsgagnaframleiðslu og var gerð sérstök skoðun á þeim þáttum við húsgagnaframleiðslu sem hafa mest áhrif á umhverfið, en það eru flutningar, framleiðsla (efnisval og framleiðsla) og lok líftíma þeirra. Með það að leiðarljósi að leita lausna til að draga úr umhverfisáhrifum íslenskrar húsgagnaframleiðslu var hafin vinna við gerð sjálfbærnistefnu félagsins sem tók mið af mikilvægisgreiningu KPMG á faginu og vinnustofu félagsmanna. Þann 23. nóvember 2022 var sjálfbærnistefna félagsins samþykkt á aukaaðalfundi og hafa fyrirtæki innan félagsins unnin að innleiðingu hennar síðan. Hér að neðan má nálgast kjarna sjálfbærnistefnu félagsins og svo stefnuna í heild. 

Hringrásarhagkerfi

Hringrásarhagkerfi

 • Þekkja umhverfisáhrif starfseminnar
 • Nýta hráefni á sem bestan hátt
 • Huga að endurnýtingu og endurvinnslu í framleiðslu
 • Nota vistvæn hráefni eins og frekast er unnt
 • Setja skýr losunarmarkmið og takmarka losun gróðurhúsalofttegunda
 • Setja markmið og aðgerðaáætlun í umhverfismálum
Gæði og öryggi

Gæði og öryggi

 • Ábyrgð gagnvart starfsfólki, viðskiptavinum og birgjum
 • Líkamleg og andleg heilsa starfsfólks grunnforsenda velgengni
 • Núllslysastefna til að tryggja heilbrigt og öruggt starfsumhverfi
 • Laun og réttindi í samræmi við kjarasamninga
 • Mannréttindi virt í virðiskeðju
 • Framleiða örugga og endingargóða gæðavöru
Yfirsýn

Yfirsýn

 • Starfa af heilindum
 • Góðir stjórnarhættir
 • Gæði í starfsemi
 • Skýrar siðareglur
 • Eftirlit með starfsemi
 • Opinská, regluleg og gegnsæ samskipti og samstarf við hagaðila

FHIF og sjálfbærni

Félagið gerir sér grein fyrir því að framtíð vandaðrar framleiðslu og framför í greininni byggja á sjálfbærri framleiðslu sem bæði tekur tillit til umhverfis og samfélags. Því hefur félagið sett sér sjálfbærnistefnu. Stefnan er byggð á mikilvægisgreiningu fyrir greinina og félagið og inniheldur vel skilgreind markmið og mælikvarða. Stefnu þessari verður fylgt eftir með aðgerðaráætlun.
Við styðjum heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og þá sérstaklega heimsmarkmið nr. 3, 8, 9, 12 og 13. Við leggjum áherslu á þá málaflokka þar sem við getum haft mest áhrif á og eru viðeigandi og mikilvægir fyrir kjarnastarfsemi félagsins.

Hlutverk og ábyrgð

Stefnan er samþykkt af aðalfundi félagsins.

Gagnsæi

Stjórn félagsins hefur umsjón með útgáfu reglubundinnar skýrslu um árangur af stefnunni. Þá fer stjórn árlega yfir stefnu þessa og skoðar hvort þörf sé á uppfærslu eða breytingum. Stefna þessi og árleg skýrsla verða birt opinberlega.

Skuldbinding

Með samþykkt stefnunnar skuldbinda aðildarfélög Félags húsgagna- og innréttingaframleiðenda sig til að haga starfsemi sinni í samræmi við stefnu þessa. 

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem við
styðjum sérstaklega

Image
Image
Image
Image
Image

1. Umhverfi

Hráefnanotkun og nýtni

Við framleiðslu okkar nýtum við náttúruauðlindir og gerum okkur grein fyrir því hvaða áhrif starfsemi okkar hefur á umhverfið.  Þess vegna leitumst við við að nýta hráefni á sem bestan hátt og hugum að endurnýtingu og endurvinnslu í framleiðslu okkar. Við viljum nota vistvæn hráefni eins og mögulegt er í okkar starfsemi.

Losun gróðurhúsalofttegunda
Við setjum okkur skýr markmið varðandi losun gróðurhúsalofttegunda og leggjum okkur fram við að takmarka losun.

Umhverfisstjórnun
Einnig munum við vera með yfirlit yfir umhverfismál fyrirtækisins, markmið og skilgreindar aðgerðir með árangursmælikvörðum.


2. Félagslegir þættir

Heilsa og öryggi starfsfólks
Við gerum okkur grein fyrir ábyrgð okkar þegar kemur að starfsfólki, viðskiptavinum og birgjum. Gott starfsfólk er grunnforsenda velgengi aðildarfélaga okkar og er heilsa þeirra, líkamleg jafnt sem andleg, okkur mikilvæg. Því skuldbindum við okkur til að innleiða núll-slysastefnu hjá öllum aðildarfélögum, og viljum tryggja heilbrigt og öruggt starfsumhverfi fyrir starfsfólk okkar, þar sem fólki líður vel að vera það sjálft.

Keðjuábyrgð (mannréttindi)
Einnig tryggjum við að laun og réttindi alls starfsfólks sé í samræmi við gildandi kjarasamninga. Við leggjum áherslu á að mannréttindi séu virt í virðiskeðju okkar en áhætta í mannréttindamálum er tengd framleiðslu þeirra grunnhráefna sem við notum. Því viljum við einungis versla við birgja sem tryggja mannréttindi.

Vörugæði og öryggi
Einnig viljum við framleiða örugga og endingargóða gæðavöru.


3. Stjórnarhættir

Yfirsýn og eftirlit
Við viljum starfa af heilindum og á sanngjarnan hátt með því að vinna eftir góðum stjórnarháttum og tryggja gæði í starfsemi okkar. Þess vegna setjum við okkur  skýrar siðareglur sem aðildarfélög okkar vinna eftir og tryggjum nægjanlegt eftirlit með sanngjarnri starfsemi

Samskipti við hagaðila
Opinská, regluleg og gagnsæ samskipti við hagaðila eru okkur mikilvæg og viljum við eiga gott samstarf við okkar helstu hagaðila.